45 leiðir til að uppfæra Ísland

Að einblína á vandamál er auðvelt.
Að benda á tækifæri er líklegra til árangurs.

Hugmyndin með þessum vef er einföld. Hann er vettvangur fyrir hugmyndir um hvernig hægt er að uppfæra Ísland, gera það að betri stað til að búa á.

Tilgangurinn með honum er ekki að finna "bestu" hugmyndina, eina stóra töfralausn sem breytir öllu til hins betra á einu bretti.

Markmiðið er frekar að draga fram sem flestar hugmyndir sem eiga það sameiginlegt að vera bæði áþreifanlegar og framkvæmanlegar. Hugmyndir sem hægt er að tala um, meta og gera eitthvað úr.

Þetta er ekki keppni og það eru engin verðlaun í boði nema vitneskjan um að kannski muni einhver taka hugmyndina þína og hrinda henni í framkvæmd.

Íslenskt samfélag er eins og Ísland sjálft, enn í mótun. Allir geta tekið þátt í að færa það til betri vegar.


Uppfærum Ísland er verkefni á vegum Samtaka atvinnulífsins sem hófst í apríl 2012.
Uppfærum Ísland er líka á Facebook og Twitter.

Hvað viltu uppfæra?

  Ferðamannalandið
  Ferðamönnum hefur fjölgað svo að það er nánast uppselt í sumarleyfi á Íslandi. Hvað getum við gert til að byggja upp afþreyingu og aðstöðu svo að hægt sé að heimsækja landið allt árið?
  Land iðnaðar og orkunýtingar
  Iðnaður þýðir ekki bara álver og virkjanir. Marel, Össur og CCP eru dæmi um fyrirtæki sem ekki voru fyrirséð fyrir um 30 árum. Hvað getum við gert til að stuðla að fleiri slíkum dæmum á þeim næstu 30?
  Hátæknilandið
  Mikil tækifæri felast í íslenskum tölvu- og hugbúnaðargeira, heilbrigðistækni, lífvísindum, umhverfistækni og upplýsingatækni. Hvernig er hægt að nýta þau tækifæri betur?
  Litla Ísland
  Íslenskt atvinnulíf er byggt upp af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Nokkur teljast stór en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa byrjað smátt og hugsað stórt. Hvernig er hægt að hjálpa smáfyrirtækjunum að dafna?
  Land sköpunar og afþreyingar
  Menning og listir verða sífellt mikilvægari þáttur í atvinnulífi Íslendinga — tónlist, kvikmyndir, listahátiðir og hvers konar afþreying. Hvernig getum við lagt þessum greinum meira lið?
  Þjónustulandið
  Hlutur verslunar og þjónustu vex stöðugt, ekki síst í kringum stærstu útflutningsgreinarnar, sjávarútveg, álframleiðslu og ferðaþjónustu. Hvernig getum við aukið verðmætasköpun í þjónustugreinum?
  Matvælalandið
  Ísland er gjöfult forðabúr. Fiskistofnar eru nýttir af ábyrgð og landgæði eru til framleiðslu margs konar landbúnaðarafurða. Hvernig er hægt að nýta þessar náttúruauðlindir betur?
  Sjávarlandið
  Mikil hagræðing og innleiðing á hátækni hefur breytt veiðum og vinnslu mikið og fundist hafa aðferðir til að vinna verðmæti úr fleiri tegundum sjávarfangs. Hvað er hægt að gera meira?
  Menntun
  Góð menntun á öllum skólastigum og að formlegu námi loknu er lykilatriði fyrir velsæld Íslands. Hvernig er hægt að bæta íslenskt menntakerfi?
  Nýsköpun og rannsóknir
  Rannsóknir og nýsköpun á öllum sviðum hjálpa þjóðum að leysa þau stóru verkefni sem þær standa frammi fyrir á hverjum tíma. Hvernig er hægt að bæta nýsköpun og rannsóknir á Íslandi?